Hugbúnaðarfyrirtækið Talk Liberation, sem heldur út samfélagsmiðlinum Panquake, hefur höfðað mál á hendur Íslandsbanka og krefst viðurkenningar á bótaskyldu bankans vegna frystingar fjármuna fyrirtækisins.
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Talk Liberation í málinu en hann segir í samtali við mbl.is að bankinn hafi valdið fyrirtækinu umtalsverðu tjóni.
Samfélagsmiðilinn Panquake er ómiðstýrður samfélagsmiðill sem stofnaður var af stuðningsmönnum Julian Assange, stofnanda Wikileaks.
Fyrirtækið var starfrækt hér á landi vegna þess að Ísland var talið til fyrirmyndar þegar kæmi að gagnaleynd og verndun blaðamanna og upplýsinga en Sveinn Andri hefur áður verið lögmaður Wikileaks í máli gegn Valitor.
Talk Liberation fjármagnar sig að mestu á frjálsum framlögum en Íslandsbanki tók ákvörðun um að frysta fjármuni fyrirtækisins á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
„Íslandsbanki hefur ekki viljað útskýra þessa ákvörðun almennilega. Bankinn hefur ekki viljað leggja fram nein gögn um að neitt grunsamlegt hafi átt sér stað,“ segir Sveinn Andri.
Þær takmörkuðu skýringar sem bankinn lagði fram um ástæður frystingarinnar standist ekki skoðun.
„Bankinn ber fyrir sig að innborgað hlutafé upp á eina milljón bandaríkjadala hafi verið umfram það sem búast mætti við samkvæmt lýsingum fyrirtækisins en það stenst ekki. Fyrirtækið hafði gefið upp hvað mætti vænta að væru reglulegar tekjur en þarna kom upp fjárfesting sem bankinn taldi dularfulla sem er galið, einhverjar aðrar ástæður búa þarna að baki sem bankinn hefur ekki viljað útskýra,“ segir lögmaðurinn.
Frystingu fjármunanna hefur nú verið aflétt en Sveinn Andri segir þó víst að hún hafi valdið Talk Liberation umtalsverðu fjártjóni.
„Það er búið að senda fjármagnið til baka en auðvitað var ekki hægt að nýta það á meðan. Þetta olli fyrirtækinu miklu tjóni enda átti að nota fjármagnið í það að forritarar og aðrir íslenskir starfsmenn myndu sjá um uppsetningu og utanumhaldið á þessu vefsvæði.“
Ekki er þó víst hve mikið tjónið er og snýr málið því aðeins að því að fá bótaskyldu Íslandsbanka viðurkennda.
„Ein milljón bandaríkjadala varð fyrir frystingunni. Þetta snýst um að fá bótaskylduna viðurkennda, ef dómstólar verða við því þá er næsta skref að meta tjónið,“ segir lögmaðurinn um umfang tjónsins.
Eftirlit sem haldið er úti á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skortir gagnsæi að sögn Sveins Andra.
„Vandamálið er að eftirlit með lögunum er í höndunum bankanna, sem eru einkareknir. Kerfið hjá þeim og reglurnar skortir gagnsæi og þeir neita að leggja fram upplýsingar um sitt innra verklag. Stjórnvöld koma ekki við sögu heldur bara óljósar innri reglur bankanna sem byggja á gagnagrunnum sem enginn veit hvað stendur í.“
Sveinn Andri segir að eftirlit sem þetta ætti tvímælalaust að vera í höndum opinberra aðila.
„Það væri algjörlega eðlilegra. Þetta eftirlit byggir á upplýsingum sem oft gefst ekki kostur á að leiðrétta eða lagfæra og þar geta verið alls kyns athugasemdir sem bankastarfsmenn setja inn í gagnagrunninn sem er bara litið á sem heilagan sannleik, þetta er algjörlega óviðunandi.“